Skólinn býður upp á verk- og bóknám. Bæði styttri brautir og brautir til starfsréttinda og stúdentsprófs.
Á stúdentsprófsbraut eru þrjár ólíkar námslínur auk þess sem nemendur geta stundað nám til stúdentsprófs að loknu eða samhliða starfsnámi. Stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í háskóla og ýmsa sérskóla eða starfsréttindanámi.
Nám til stúdentsprófs
Þriggja ára stúdentsprófsbraut
Nemandi með stúdentspróf af bóknámsbraut býr yfir almennri og sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við nám á háskólastigi. Sérhæfingin tengist því fræðasviði á háskólastigi sem stefnt er á. Við sérhæfinguna hefur hann öðlast innsýn inn í starfsaðferðir viðkomandi fræðasamfélags og býr yfir hæfni til að verða ábyrgur og virkur einstaklingur í því lýðræðislega samfélagi. Hann getur nýtt sér erlent tungumál við frekara nám og sér menntun sína í alþjóðlegu samhengi. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína, getur skýrt og rökstutt verklag á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Hann býr yfir hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við tækni og vísindi og getur nýtt þekkingu sína, leikni og hæfni til að greina ný tækifæri.
Val um þrjár línur:
Félagsvísindalína, Náttúruvísindalína og Opin lína. Þeir sem velja opna línu þurfa í samráði við umsjónarkennara og námsráðgjafa að velja sér sérhæfingu á ákv. sviði.
Í boði eru íþróttasvið, heilbrigðissvið, listasvið og viðskiptasvið
Viðbótarnám til stúdentsprófs
Brautin er ætluð nemendum í starfsnámi með námslok á 3. hæfniþrepi. Markmið með námsleiðinni er að uppfylla þær lágmarkskröfur sem aðalnámskrá framhaldsskóla setur til stúdentsprófs. Sérhæfing nemandans er fólgin í starfsnámi hans. Mikilvægt er að nemendur skipuleggi nám sitt til að mæta aðgangsviðmiðum þeirrar námsleiðar sem þeir stefna á í háskóla.
Starfsbraut er ætluð nemendum sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla og þurfa sérhæft, einstaklingsmiðað nám sem mætir færni þeirra og áhuga. Brautin er ætluð nemendum sem stundað hafa nám í sérdeildum grunnskóla eða notið mikillar sérkennslu á grunnskólastigi. Fötlunargreining frá viðurkenndum greiningaraðilum þarf að fylgja umsókn á starfsbraut. Unnið er út frá styrkleikum hvers og eins og áhersla er á að efla sjálfsmynd nemenda. Markmið starfsbrautar er að nemendur kynnist námi og starfi við hæfi og fái tækifæri til að auka við þekkingu sína og færni sem stuðlar að auknu sjálfstæði þeirra og auðveldar þeim að takast á við atvinnu og viðfangsefni daglegs lífs í nútíma samfélagi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og kennsluhættir brautarinnar eru fjölbreyttir og einstaklingsmiðaðir. Nám á brautinni er blanda af bóklegu og verklegu námi.
Sjúkraliðabraut
Sjúkraliðanám er 206 feininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla og starfsþjálfun getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.
Sjúkraliðabrú
Ófaglært fólk með langa starfsreynslu í umönnunarstörfum hefur tækifæri til þess að öðlast starfsréttindi sjúkraliða með námi á sjúkraliðabrú. Námið var sett á stofn í samvinnu Menntamálaráðuneytis, fjölbrautaskóla sem mennta sjúkraliða og Sjúkraliðafélags Íslands.
Inntökuskilyrði í nám á sjúkraliðabrú eru:
Að umsækjandi hafi náð 23 ára aldri og hafi að lágmarki 5 ára starfsreynslu við umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra, séu starfandi við slíka umönnun og hafi meðmæli frá vinnuveitenda sínum. Auk þess þurfa umsækjendur að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila að lágmarki 230-260 stundir. Umsækjendur, sem lokið hafa vissum áföngum í framhaldsskóla, geta fengið þá metna sem ígildi námskeiða. Þeir sem uppfylla eftirtalin skilyrði skulu að lágmarki ljúka 146 feininga sérgreinanámi sjúkraliðabrautar. Námsgreinarnar Heilbrigðisfræði, bókleg og verkleg hjúkrun, líffæra- og lífeðlisfræði, líkamsbeiting, lyfjafræði, næringarfræði, sálfræði, siðfræði, sjúkdómafræði, skyndihjálp, sýklafræði og upplýsingalæsi. Að auki er starfsþjálfun og vinnustaðanám.
Vélstjórn A-stig
Vélstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sex námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem vélstjóri. Þetta námsstig (þriðja) er til réttinda til að gegna stöðu vélavarðar og vélstjóra á skipum með vélarafl 750 kW og minna. Til sjós er starfssvið vélstjóra að annast rekstur og viðhald vél- og rafbúnaðar og tryggja, í samvinnu við aðra yfirmenn um borð, að rekstur skipsins fullnægi gildandi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og mengunarvarnir. Véla- og tækjabúnaður skipa er mjög fjölbreyttur þar sem skip eru hönnuð til ólíkra hlutverka. Störf vélstjóra eru því víðtæk og spanna starfssvið margra starfsstétta í landi.
Þessi námsbraut til A-réttinda er fyrst og fremst fagnám til að öðlast vélstjórnarréttindin og ekki hugsuð fyrir nemendur sem ætla í lengra nám (þeir velja námsbraut til B réttinda). Jafnframt er hún ekki hugsuð fyrir þá sem er yngri en 20 ára, gert er ráð fyrir að atvinnuþátttaka fram að því veiti nemanda þann grunn sem þarf til að takast á við þetta nám og því er reynsla af sjómennsku mjög æskileg.
Vélstjórn B-stig
Með þessu námi færðu réttindi til að gegna stöðu yfirvélstjóra og 1. vélstjóra á skipum með vélarafl að 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna (að loknum siglingatíma). Námsstig B veitir einnig rétt til að undirgangast sveinspróf í vélvirkjun að lokinni starfsþjálfun.
Vélstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sex námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem vélstjóri. Þetta námsstig (fjórða) er til réttinda til að gegna stöðu yfirvélstjóra og 1. vélstjóra á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Þetta námsstig er jafnframt nám til prófs í vélvirkjun. Í náminu öðlast nemendur einnig viðeigandi menntun og þjálfun þannig að þeir geti sinnt vélstjórnarstörfum í landi, t.d. á sviði orku- og veitufyrirtækja og í iðnaði. Til sjós er starfssvið vélstjóra að annast rekstur og viðhald vél- og rafbúnaðar og tryggja, í samvinnu við aðra yfirmenn um borð, að rekstur skipsins fullnægi gildandi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og mengunarvarnir.
Vélstjórn C-stig
Þeir sem ljúka C stigi í vélstjórn fá réttingi til áfamhaldandi vélstjórnarnáms og réttindi til að gegna stöðu yfirvélstjóra og 1.vélstjóra á skipum með vélarafli allt að 3000kW og undirvélstjóra á skipum með ótakmarkð vélarafl.
Skipstjórnarnám B
Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu, færni og hæfni sem krafist er til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum styttri en 45 metrar í innanlandssiglingum og á flutninga- og farþegaskipum að 500 BT í strandsiglingum. Réttindin fást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma, starfsþjálfun og öryggisfræðslu .Skipstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sjö námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem skipstjórnarmaður. Með því að ljúka Skipstjórn B hefur þú lokið fimm fyrstu námsstigum námsins. Þriðja námsstig (réttindi A) er til réttinda til að gegna stöðu skipstjóra eða stýrimanns á skipum sem eru styttri en 24 metrar að skráningarlengd og stöðu undirstýrimanns á skipum að 45 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum. Innifalin eru tvö fyrstu námsstigin, þ.e. námsstig eitt – skemmtibátar, og námsstig tvö – réttindi á smáskip <12 m. Fjórða námsstig (réttindi B) er til réttinda til að gegna stöðu skipstjóra/yfirstýrimanns á skipum sem eru 45 metrar að skráningarlengd eða minni í innanlandssiglingum og undirstýrimanns á fiskiskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði. Einnig sem skipstjóri og stýrimaður á farþega- og flutningaskipum sem eru minni en 500 brúttótonn í strandsiglingum (STCW II/3). Jafnframt er innifalið námsstig eitt í vélstjórn, þ.e. vélgæsluréttindi <750 kW fyrir að hámarki 12 m löng skip.
Iðnnám
Grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina
Grunnnámið er fyrsta önnin í sérgreinum byggingargreina og fá nemendur kynningu á öllum byggingagreinunum. Nemendur eldri en 23 ára geta sótt um beint á fagbraut. Nám í byggingargreinum er sérnám sem leiðir til starfsréttinda og einnig er hægt að velja leiðir að háskólastigi. Sérnám í einstökum greinum tekur að jafnaði 2,5 ár auk 1,5 árs starfstíma hjá meistara.Námsgreinar á brautinni eru efnisfræði grunnnáms, framkvæmdir og vinnuvernd, grunnteikning, íþróttir, lífsleikni, skyndihjálp , stærðfræði og verktækni grunnnáms byggingargreina. Nemendur sem ekki uppfylla skilyrði til að hefja nám grunnnámið geta ennfremur þurft að bæta við sig undirbúningsáföngum í íslensku og ensku.
Húsasmíði
Húsasmiður býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Húsasmiður getur mælt út fyrir byggingu og afsett hæðir, hannað og útfært einföld hús og húshluta, metið og valið aðferðir, verkferla, verkfæri og efni sem henta hverju sinni, metið eiginleika efnis og álagskrafta sem þeim tengjast, metið þörf fyrir viðhald húsa og húshluta og valið efni og aðferðir til viðhalds, leiðbeint húseigendum um val á efni til nýbygginga og viðhalds. Húsasmíði er löggilt iðngrein.
Múraraiðn
Múrari býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Múrari þekkir öll helstu efni sem notuð eru við múrverk úti og inni. Múrari getur skipulagt vinnu við jarðvegsfyllingar í mannvirkjagrunnum, lagt steypustyrktarjárn og bendinet í steinsteypuvirki, annast blöndun og niðurlagningu steinsteypu, hlaðið úr steini og veggjaeiningum, múrhúðað utan og innanhúss, lagt flísar innanhúss og utan, lagt mat á, valið efni og gert við múr- og steypuskemmdir, leiðbeint húseigendum um val og á efni til nýbygginga og viðhalds. Múraraiðn er löggilt iðngrein.
Pípulagnir
Pípulagningamaður býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Hann þekkir helstu eiginleika og verkan efna og tækja og getur valið þau eftir verkefnum. Pípulagningamaður getur lagt vatnshitakerfi og neysluvatnskerfi innanhúss og ýmis sérhæfð lagnakerfi, lagt frárennsliskerfi innanhúss og í jörðu, sett upp og tengt hreinlætis- og heimilistæki og sett upp og stillt búnað í tækjaklefum. Pípulagningamaður getur annast viðhald og viðgerðir á lagnakerfum og búnaði tengdum þeim. Hann getur leiðbeint húseigendum um val á efnum í nýbyggingum og við viðhald. Pípulagnir er löggilt iðngrein
Grunnnám málm- og véltæknigreina
Grunnnám málm- og véltæknigreina er ætlað að veita nemendum góða og almenna þekkingu m.a. á málmsíði og véltækni. Einnig er lögð áhersla á að þjálfa nemendur til starfa á sem flestum sviðum málm- og véltæknigreina. Auk kjarnagreina taka nemendur faggreinar s.s. rafsuðu, vélstjórn og logsuðu. Brautin er undirbúningur fyrir sérnám m.a. í stálsmíði, bifvélavirkjun og vélstjórn. Að loknu grunnnámi velur nemandinn sér faggrein eftir áhugasviði.
Vélvirkjun
Vélvirki er lögverndað starfsheiti og vélvirkjun er löggilt iðngrein. Markmið námsins er að gera nemendum kleift að takast á við þau viðfangsefni sem vélvirkjar inna af hendi, þ.e. uppsetningu, viðgerðir, viðhald, endurnýjun og þjónustu á hvers kyns vél- og tæknibúnaði og flutningakerfum í skipum, vinnslustöðvum, vinnuvélum, verksmiðjum, orkuverum og orkuveitum, skipulagningu fyrirbyggjandi viðhalds, eftirliti með ástandi vélbúnaðar og greiningu bilana. Námið samanstendur af bóklegu námi í skóla og verklegu námi bæði í skóla og á vinnustöðum, ásamt starfsþjálfun í fyrirtækjum. Nám sem fer fram á vinnustað er samtvinnað bóklega náminu út námstímann og hefur að markmiði að þjálfa nemendur í vinnuferlum, auka færni þeirra á vinnumarkaði, þjálfa samvinnu á vinnustað og auka getu þeirra til þess að takast á við raunverulegar aðstæður í fyrirtækjum. Námið tekur að jafnaði þrjú heil ár og við lok þess staðfesta nemendur kunnáttu sína og færni í sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
Grunnnám rafiðna
Námið veitir nauðsynlegan undirbúning fyrir fagnám í rafiðngreinum. Þetta er fornám fyrir rafvirkjun, rafeindavirkjun, rafvélavirkjun og rafveituvirkjun. Námið tekur að jafnaði fjórar annir og er skilgreint sem lokapróf á öðru þrepi. Námið er að þriðjungi bóklegar greinar og er restin faggreinar.
Grunnnám rafiðna -dreifnám
Í fyrsta skipti í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum verður boðið upp á grunndeild rafiðna í dreifinámi (lotubundnu) haustið 2023. Framboð af slíku grunnnámi í rafiðnum hefur verið mjög takmarkað á Íslandi og er því um einstakt og spennandi tækifæri að ræða fyrir alla þá sem hafa áhuga á að mennta sig á sviði rafiðnar.
Hvað er grunndeild rafiðna?
Nám í rafiðnum telst til verknáms og flest verknám á Íslandi fer fram með blönduðum hætti, þ.e. bóklegum hluta og verklegum hluta. Þeim er blandað saman með þeim hætti sem skilar námsefninu best til nemandans. Nemandinn fær þá bæði fræðilega og verklega þekkingu á efninu, ásamt verkreynslu á helstu þáttum rafiðnaðarins.
Hér má finna meiri upplýsingar um námið og þá möguleika sem það býður upp á
Rafvirkjun
Störf rafiðnaðarmanna eru margvísleg. Allt frá því að leggja háspennulínur til þess að setja saman örmerki fyrir dýr. Rafvirkjar vinna mjög fjölbreytt störf í rafiðngeiranum. Þeir leggja rafmagn í nýbyggingar, setja upp rafmagnstöflur, dósir, tengla og rofa og lýsingu ásamt netkerfum. Þar sem tölvustýrð kerfi eru forrita þeir jafnframt kerfin. Rafvirkjar vinna mikið í iðnaði við rafvélar og stýringar, bæði við uppsetningar og viðhald.
Markmið rafvirkjabrautar er að búa nemendur undir að geta starfað sjálfstætt við almenn störf rafvirkja. Að loknu námi eiga nemendur að þekkja og kunna að vinna með helsta tækjabúnaði sem notaður er af rafvirkjum, geta lagt rafmagn í byggingar, unnið við stýringar og rafvélar. Nemendur verða færir um að starfa við framleiðslu og dreifingu raforku. Rafvirki á hæfniþrepi 3 býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, veita ráðgjöf, gera ítarlegar tíma- og kostnaðaráætlanir sem og skila sinni vinnu í samræmi við væntingar. Hann hefur djúpan skilning á þeim búnaði, verkferlum og fræðum sem snúa að hans vinnu. Hann getur viðað að sér aukinni þekkingu í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja með því að nýta sér miðla og upplýsingar sem snúa að faginu og notað hina auknu þekkingu við störf sín.
Nemendur sem lokið hafa grunndeild rafiðna geta sótt um á rafvirkjabraut. Samhliða námi hefja nemendur samningsleið sem felur í sér störf í umsjón meistara. Meistari og nemi votta hæfniþrep sem áskilin eru í rafrænni ferilbók. Að lokinni útskrift og ferilbók öðlast neminn rétt á að þreyta sveinspróf.
Annað nám
Framhaldskólabrú
Námi á framhaldsskólabrú er ætlað að búa nemendur sem ekki hafa náð tilskyldum árangri á grunnskólaprófi undir nám á verk-, bók- eða listnámsbrautum skólans. Námið er að lágmarki 100 framhaldsskólaeiningar og því lýkur með framhaldsskólaprófi. Gert er ráð fyrir að stór hluti nemenda á framhaldsskólabrú hefji nám á annarri námsbraut í framhaldi af eða samhliða námi á framhaldsskólabrú. Á brautinni er öflugt umsjónarkerfi, mikið samráð við forráðamenn og nemendur fá aðhald og stuðning í námi.
Iðnmeistaranám
Iðnmeistaranám er öflugt nám í stjórnunar- og rekstrargreinum sem miðar að því að gera nemendur hæfa til að reka fyrirtæki skv. 10. grein iðnaðarlaga nr. 42/1978 og vera færa um að sjá um leiðsögn og kennslu iðnnema í eigin iðngrein. Hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr. laganna, hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni eitt ár minnst og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Meistarabréf veitir meistara leyfi til að reka þá iðngrein sem meistarabréf hans tekur til.
Námið samanstendur af 38 einingum en þess utan þurfa sumar iðngreinar að taka fleiri einingar, sjá hér fyrir neðan. Námið er á fjórða hæfniþrepi íslensks hæfniramma um menntun og er kennt í dreifnámi og skipulagt þannig að möguleiki er að taka það með vinnu.
Til að hefja iðnmeistaranám þurfa nemendur að hafa lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein.
Hér má fá nánari upplýsingar um iðnmeistaranám