Skólareglur

Til þess að ná þeim markmiðum skólans um að búa nemendur undir að takast á við kröfur daglegs lífs, framhaldsnám og störf er nauðsynlegt að þeim sé skapað gott námsumhverfi. Með styttingu náms til stúdentsprófs og aukinni áherslu á símat í námi er mikilvægt að nemendur mæti vel í skólann og sinni náminu jafnt og þétt. Almennar skólareglur, reglur um skólasókn og reglur um vinnubrögð eru hluti af góðu og skipulögðu námsumhverfi og leiðbeinandi fyrir nemendur á námsvegferðinni. Nemendum ber að kynna sér skólareglur og fara eftir þeim. Þeir get ekki komið sér undan brotum á reglum með því að beita fyrir   vanþekkingu á þeim. Skólameistari og skólaráð fjalla um brot á reglum þessum og ákveða viðurlög.

 • Innan skólans gilda landslög sem skólareglur án þess að þeirra sé sérstaklega getið.
 • Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skal ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks.
 • Kurteisi og gott siðferði ber að viðhafa í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans.
 • Vinnufriður á að ríkja í tímum. Kennari er verkstjóri í kennslustundum og það hefur í för með sér að nemendum ber að fara að fyrirmælum hans svo allir sem mættir eru í tímann geti unnið að námi sínu.
 • Nemendum ber að mæta á réttum tíma, vera undirbúnir, með viðeigandi námsgögn og vera virkir í kennslustundum.
 • Nemendum ber að hlýða fyrirmælum starfsfólks.
 • Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og ávallt gæta að skerða ekki heiður hans.
 • Nemendur bera sjálfir ábyrgð á verðmætum sínum.
 • Nemendum ber að fara vel með þá muni skólans sem þeir nota og þeir fá að láni í tengslum við kennslu eða aðra starfsemi í skólanum.
 • Spjöll/skemmdir sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða eigum hans skulu þeir bæta að fullu.
 • Reykingar eru bannaðar í skólanum, hvort sem er tóbaks eða annarra efna, svo og notkun munntóbaks og neftóbaks. Þá eru svokallaðar rafrettur/veipur einnig bannaðar. Bannið nær yfir öll húsakynni skólans, lóð og  samkomur og ferðir á vegum skólans.
 • Stranglega er bannað að hafa áfengi og önnur vímuefni um hönd eða vera undir áhrifum þeirra í húsakynnum skólans, á lóð hans og öllum samkomum og ferðum á vegum skólans. 
 • Nemendum er óheimilt að bera vopn í skólanum. Hvort sem um er að ræða hnífa, skotvopn, rafbyssur eða önnur þau vopn sem falla undir skilgreiningar vopnalaga 1998 nr. 16. 

Brjóti nemandi reglur skólans fær hann viðvörun. Ítrerkuð brot á skólareglum geta leitt til brottvísunar. Forráðamönnum ólögráða nemenda er gert viðvart svo þeir geti nýtt andmælarétt sinn. 

Uppfært október 2021