Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum var stofnaður 1979 og byggði á samruna Iðnskólans í Vestmannaeyjum, Vélskólans í Vestmannaeyjum og framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum varð að sérstakri deild innan skólans haustið 1997.
Þegar horft er til þeirra skóla er þarna runnu saman í einn, þá furðar víst engan að hinn nýi skóli yrði fjölbrautaskóli þar sem í boði er bæði bók- og verknám, langt nám og stutt. Jafnframt fjölbrautakerfinu var tekið upp áfangakerfi. Þar sem námi í einstökum greinum var skipt upp í námspakka, sem hver um sig er ætlaður til kennslu á einni önn.
Í upphafi heyrðu elstu bekkir grunnskólans undir Framhaldsskólann, var þá sami skólameistari yfir Framhaldsskólanum og Gagnfræðaskólanum og sumir kennarar kenndu á báðum skólastigunum. Nemendafjöldi fyrsta árið var 85 nemendur. Þeim fjölgaði fram til ársins 1997 að nemendafjöldi náði 300. Nemendafjöldi skólans hefur farið helst til minnkandi á síðustu árum og er um og yfir 200 nemendur.
Húsið, sem Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er í, var upphaflega byggt fyrir Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum . Áður en féstyrkur var veittur til byggingarinnar hafði börnum bæjarins sem voru á gagnfræðaskólaaldri verið safnað saman og látin hjálpa við að grafa grunninn að húsinu. Málverk af þeirri framkvæmd hangir við hlið skrifstofu skólameistara.
Allt frá stofnun hefur skólinn útskrifað nemendur af mismunandi brautum og með margvísleg réttindi. Hann tók við þar sem forverar hans hættu og brautskráir vélstjóra, iðnaðarmenn, sjúkraliða og stúdenta.
Uppfært september 2021