Saga FÍV

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum var stofnaður 1979 og byggði á samruna Iðnskólans í Vestmannaeyjum, Vélskólans í Vestmannaeyjum og framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum varð að sérstakri deild innan skólans haustið 1997.

Þegar horft er til þeirra skóla er þarna runnu saman í einn, þá furðar víst engan að hinn nýi skóli yrði fjölbrautaskóli þar sem í boði er bæði bók- og verknám, langt nám og stutt.

Jafnframt fjölbrautakerfinu var tekið upp áfangakerfi. Þá er námi í einstökum greinum skipt upp í  námspakka, sem hver um sig er ætlaður til kennslu á einni önn.