Húsasmíði

Húsasmiður býr yfir hæfni til að vinna sjálf­stætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Húsasmiður getur mælt út fyrir bygg­ingu og afsett hæðir, hannað og útfært ein­föld hús og hús­hluta, metið og valið aðferðir, verk­ferla, verk­færi og efni sem henta hverju sinni, metið eig­in­leika efnis og álagskrafta sem þeim tengjast, metið þörf fyrir viðhald húsa og hús­hluta og valið efni og aðferðir til viðhalds, leiðbeint hús­eig­endum um val á efni til nýbygg­inga og viðhalds. Húsasmíði er lög­gilt iðngrein.

Í desember 2023 hófst vinna við að setja upp smíðaverkstæði í húsnæði skólans svo hægt væri að kenna faggreinina í Vestmannaeyjum. Vorið 2024 hófu16 nemendur nám við húsasmíði í dreifnámi. Mikil eftirspurn hefur verið um námið og er það von okkar að geta farið af stað með annan smíðahóp haustið 2024.  

Forkröfur

Nemandi sem innritast á húsasmiðabraut þarf að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku eða stærðfræði þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum. 

 

Skipulag

Nám í húsasmíði er bæði bóklegt og verklegt og skiptist annars vegar í bóklegt og verklegt nám í skóla og hins vegar starfsþjálfun út í atvinnulífinu. Starfsþjálfun á vinnustað er mikilvægur hluti náms og miðar að því að búa nemendur undir að standast kröfur greinarinnar. Starfsþjálfun á vinnustað fer fram hjá fyrirtæki/iðnmeistara og miðast við samkvæmt hæfnikröfur ferilbókar. Almennt er miðað við að nemendur hafi lokið starfsþjálfun áður en lokaönn hefst. Að loknu námi og starfsþjálfun útskrifast nemandi með prófskírteini sem vottar að hann hafi lokið námi með fullnægjandi árangri og getur nemandi þá sótt um að taka sveinspróf sem leiðir til útgáfu sveinsbréfs. Námstími er 3 ár í skóla að viðbættri starfsþjálfun skv. ferilbók. Nemendur geta einnig stefnt að stúdentsprófi samhliða húsasmíðanámi.

Nánari upplýsingar á námskrá.is