Skipstjórnarnám B

Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu, færni og hæfni sem krafist er til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum styttri en 45 metrar í innanlandssiglingum og á flutninga- og farþegaskipum að 500 BT í strandsiglingum. Réttindin fást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma, starfsþjálfun og öryggisfræðslu .Skipstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sjö námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem skipstjórnarmaður. Með því að ljúka Skipstjórn B hefur þú lokið fimm fyrstu námsstigum námsins. Þriðja námsstig (réttindi A) er til réttinda til að gegna stöðu skipstjóra eða stýrimanns á skipum sem eru styttri en 24 metrar að skráningarlengd og stöðu undirstýrimanns á skipum að 45 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum. Innifalin eru tvö fyrstu námsstigin, þ.e. námsstig eitt – skemmtibátar, og námsstig tvö – réttindi á smáskip <12 m. Fjórða námsstig (réttindi B) er til réttinda til að gegna stöðu skipstjóra/yfirstýrimanns á skipum sem eru 45 metrar að skráningarlengd eða minni í innanlandssiglingum og undirstýrimanns á fiskiskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði. Einnig sem skipstjóri og stýrimaður á farþega- og flutningaskipum sem eru minni en 500 brúttótonn í strandsiglingum (STCW II/3). Jafnframt er innifalið námsstig eitt í vélstjórn, þ.e. vélgæsluréttindi <750 kW fyrir að hámarki 12 m löng skip.