Húsnæði FÍV

Skólahúsnæðið er  3.172 fermetrar og þar af eru 918 fermetrar kennslurými. Í skólanum eru 14 kennslustofur þar af 7 almennar  kennslustofur, ein raungreinastofa, tvær hópvinnustofur, þrjár verklegar stofur (málm- og vélstjórn, rafmagn og  Fablab) og stofa fyrir starfbraut ásamt kennslueldhúsi. Í skólanum er hátíðarsalur sem einnig er nýttur sem nemendaaðstaða. Einni kennslustofunni var nýlega breytt í núvitunarstofu þar sem fer fram kennsla í jóga og núvitund.   Bókasafn, aðstaða nemendafélags og skrifstofur starfsfólks.

Þegar Framhaldsskólinn tók til starfa haustið 1979 fór kennsla fram í tveimur húsum. Bóknámsbrautirnar voru alfarið í húsnæði gamla Gagnfræðaskólans, sem nú hýsir reyndar nær alla starfsemi Framhaldsskólans. Verklega kennslan og kennsla sérgreina vélstjórnar- og iðnbrauta fór hins vegar fram þar sem nú er til húsa Listaskóli Vestmannaeyja.

Haustið 1995 fluttist verklega kennslan í nýtt húsnæði þegar verknámsálma var byggð var við gamla Gagnfræðaskólahúsið.  Íþróttakennslan er eina kennslan sem ekki fer að öllu fram í húsnæði skólans.
Með nýju verknámsálmunni batnaði mjög öll aðstaða til kennslu í verklegum vélstjórnargreinum, sem og verklegri kennslu málmiðna. Það er kominn tími til að endurnýja mikið af þeim búnaði sem þar er og bæta við tölvustýrðum tækjum og byggja uppp kennsluumhverfi 4.0.
Í verknámsálmunni var gert ráð fyrir kennslu í verklegum tréiðnum en ekkert varð af því og var ákveðið árið 2015 koma þar upp FAB LAB smiðju í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð.

Bókasafn er í skólanum, þar hafa nemendur og lestrar- og vinnuaðstöðu. Á bókasafninu er kennslutengt efni auk afþreyingarefnis. Forstöðumaður bókasafns er bókasafnsfræðingur og útvegar millisafnalán ef nauðsynlegar bækur eru ekki til. Á bókasafninu eru einnig vinnuborð og lessalur fyrir nemendur. Allir nemendur fá bóksafnskort sér að kostnaðarlausu á bókasafn Vestmannaeyja.

Í risi verknámsálmunnar er vinnuaðstaða kennara og gert er ráð fyrir fundaraðstöðu og vantar lítið annað en hentug húsgögn til að það geti orðið að veruleika.
Nemendur hafa  gott rými fyrir félagsaðstöðu og nota þar að auki salinn og annað laust rými eftir þörfum hverju sinni.