Stjórn skólans

Stjórnendur

Helga Kristín Kolbeins, skólameistari

Thelma Björk Gísladóttir, aðstoðarskólameistari

Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. 
Menntamálaráðherra skipar skólanefnd Framhaldsskólans til fjögurra ára í senn. Í skólanum er stjórnin í höndum skólameistara, aðstoðarskólameistara og fjármálastjóra.

Skólanefnd 

Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm menn. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Vestmannaeyjabæjar og þrír án tilnefningar og skulu þeir að jafnaði búsettir í Vestmannaeyjum. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Áheyrnarfulltrúar eru tveir með málfrelsi og tillögurétt, annar tilnefndur af kennurum skólans en hinn af nemendafélagi skólans.
Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar. 

Skólaráð

Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans er skipað aðstoðarskólameistara, áfangastjóra, tveimur fulltrúum kennara og tveimur nemendum.
Skólaráð er skólameistara til aðstoðar og ráðgjafar um stjórn skólans. Það fjallar um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, skólareglur, umgengnishætti í skólanum og vinnu- og félagsaðstöðu nemenda.

Einnig veitir skólaráð umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundum, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað. Auk þess fjallar það í trúnaði um mál sem upp kunna að koma og varða einstaka nemendur og kennara.

Skólameistari

Menntamálaráðherra skipar skólameistara við framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefndar og setur honum erindisbréf.

Skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum skal m.a.:

  • bera ábyrgð á starfsemi skólans, menntunar- og uppeldishlutverki, þróunarstarfi innan hans, gerð skólanámskrár og innritun nemenda
  • bera ábyrgð á eignum, fjárreiðum og öðrum rekstri skólans
    vinna með skólanefnd að gerð fjárhags- og starfsáætlana til lengri og skemmri tíma og sjá til þess að þeim sé framfylgt
  • sjá um að lögum, reglugerðum og námskrá sé framfylgt
    ráða, að höfðu samráði við skólanefnd, starfsfólk skóla eftir því sem gildandi lög segja til um og skipta með þeim verkum
  • hafa yfirumsjón með starfi kennara og annarra starfsmanna skólans og fylgjast með því að þeir ræki skyldur sínar og njóti þeirra réttinda sem þeim ber
  • sjá til þess að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt, hlíti þeim reglum sem settar eru og njóti þeirra réttinda sem þeim ber
  • taka afstöðu til og úrskurða um álitamál vegna innra starfs og starfstíma skólans
  • sjá um tengsl skólans út á við, m.a. við aðstandendur nemenda, aðra skóla og aðila á öðrum sviðum atvinnulífsins
  • vera framkvæmdastjóri skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt
  • vera oddviti skólaráðs
  • kalla saman kennarafundi
  • bera ábyrgð á innra mati á starfi skólans
  • bera ábyrgð á að starfsemi skólans sé kynnt
  • sjá til þess að fyrir liggi upplýsingar um skólastarfið og að nauðsynlegar skýrslur um það séu gerðar
  • bera ábyrgð á að upplýsa forráðamenn ólögráða nemenda um námsástundun, námsgengi og önnur atriði er varða skólavist nemandans og velferð hans.

Aðstoðarskólameistari

Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara að höfðu samráði við skólanefnd.

  • Aðstoðarskólameistari skal m.a.:
    vera staðgengill skólameistara og vinna ásamt honum við daglega stjórn og rekstur skólans
  • vera skólameistara til aðstoðar við kennararáðningar að skólanum og hafa umsjón með stundakennurum
  • hafa umsjón með að kennt sé eftir skólanámsskrá hverju sinni í samráði við áfangastjóra
  • fylgjast með því í samráði við húsvörð að nóg sé af stólum, borðum og kennslugögnum í kennslustofum og hafa eftirlit með vinnuaðstöðu kennara.
  • annast prófstjórn og hafa ásamt áfangastjóra umsjón með gerð próftöflu, úrvinnslu einkunna til birtingar, gerð og prentun útskriftarskírteina
  • bera ábyrgð á valgreinum skólans
  • hafa með höndum kynningu á námsframboði skólans í samráði við skólameistara.

Verkefnisstjórar

Skólameistara er heimilt með sérstöku samkomulagi við kennara að fela honum tímabundna verkefnastjórn.