Stefna

Stefna Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum til þriggja ára sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál.

 

Stefnuskrá Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

Hlutverk

Hlutverk Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum er að efla alhliða þroska nemenda skólans svo að þeir geti tekið virkan þátt í samfélaginu, í starfi, frekara námi og leik. Skólinn leggur sérstaka áherslu á að gera nemendum kleift að stunda sem fjölbreyttast  nám í sinni heimabyggð. Jafnframt mun skólinn leitast við að skapa sér sérstöðu og bjóða upp á nám sem laðar að nemendur annars staðar  af landinu. 

Leiðarljós  

Leiðarljós skólans í námi og öðru skólastarfi, er virðing í samskiptum og vönduð vinnubrögð í öllu sem nemendur og starfsfólk taka sér fyrir hendur.

Markmið og áherslur                                                                                   

Skólinn kynnir helstu áherslur í starfinu, undir tveimur meginmarkmiðum. Þessar áherslur eru svo útfærðar nánar í afmarkaðri og mælanlegri undirmarkmiðum, sem snúa að öllum þáttum skólastarfsins.

FÍV vill bjóða fjölbreytt og gott nám, sem mætir kröfum nemenda og nærsamfélagsins á hverjum tíma.

(Þær áherslur sem undir þetta markmið falla, tengjast: Námi, námsframboði, kennslu og nemendum/viðskiptavinum)

Helstu áherslur eru:

  • Að skólinn skili víðsýnum nemendum með trausta þekkingu og þroska sem nýtist í starfi, leik og námi.
  • Að nemendur öðlist aukið sjálfstraust og búi sig undir að taka ábyrgð á eigin lífi, um leið og þeir tileinka sér virðingu fyrir samferðafólki og umhverfi sínu.
  • Að fjölbreytni náms í skólanum birtist í hæfilegri blöndu bóknáms, verknáms og náms fyrir þá sem þurfa sérúrræði.
  • Að laga nám og kennslu að þeirri sérstöðu sem heimabyggðin hefur og taka mið af atvinnulífi og menningu Vestmannaeyja, eftir því sem við verður komið.
  • Að gæði kennslunnar verði tryggð, með hæfum vel menntuðum kennurum og virku námsumhverfi í stöðugri þróun og endurskoðun.

FÍV vill að starfsmönnum og nemendum líði vel í skólanum og að þeir fái tækifæri til að þroska samskipti, byggð á gagnkvæmri virðingu og skilningi. 

(Þær áherslur sem undir þetta markmið falla, tengjast:Stjórnun, starfsmönnum, stoðþjónustu og nemendum/ samstarfsmönnum)

Helstu áherslur eru:

  • Að stjórnun sé ávallt skýr og skilvirk, unnin í góðri samvinnu við starfsmenn og nemendur.
  • Að allir starfsmenn og nemendur séu meðvitaðir um skyldur sínar og réttindi og öll mál fái sanngjarna og réttláta afgreiðslu.
  • Að allir starfsmenn og nemendur hafi greiðan aðgang að ráðgjöf, heilsugæslu, líkamsrækt og þeim tækjabúnaði sem nám og önnur störf krefjast.
  • Að starfað sé eftir raunhæfri og rökstuddri fjárhagsáætlun, innan þess ramma sem fjárheimildir leyfa, en jafnframt skal leita leiða til að auka sértekjur skólans. 
  • Að skólinn leggi sig eftir samstarfi við foreldra, aðra skóla og stofnanir, aðila úr atvinnulífinu og sveitastjórnir í okkar næsta nágrenni. 

Að skólinn reki kynningarstarf og tryggi stöðugt upplýsingastreymi til foreldra og samstarfsaðila