Jafnréttisáætlun Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

 

Jafnréttisáætlun

 Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum bæði karla og kvenna. Jafnréttisáætlun skólans er ætlað að stuðla að jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans og minna starfsfólk og stjórnendur á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis.

Jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi

Í áætluninni er gerð grein fyrir jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúa auk þess sem sett eru fram helstu markmið og aðgerðir skólans sem miða að jafnrétti kynjanna.

Innan skólans starfar jafnréttisnefnd sem skipuð var þann 10.02.2010 með erindisbréfi til tveggja ára. Í erindisbréfi jafnréttisnefndar segir: 

Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum, móta stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa skólans.

Í starfi sínu hafi nefndin til hliðsjónar jafnréttisáætlun Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, menntamálaráðuneytis og Stjórnarráðs og lög og reglugerðir sem við eiga. 

 Helstu verkefni nefndarinnar eru að:

  • endurskoða jafnréttisstefnu skólans 
  • hafa eftirlit með að farið sé að lögum og reglum í jafnréttismálum og að jafnréttisáætlunum sé fylgt eftir meðal annars með því að safna og birta reglulega upplýsingar um stöðu jafnréttismála í skólanum 
  • vera til ráðgjafar við gerð aðgerðaáætlana, ef þess er óskað, um hvernig rétta skuli hlut kynja þar sem það á við 
  • fylgjast með framgangi verkefna innan skólans sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 
  • hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. 
  • fylgjast með umræðu um jafnréttismál eftir því sem við verður komið 
  • standa að fræðslu um jafnréttismál fyrir stjórnendur og annað starfsfólk 
  • halda uppi umræðu og fræðslu um jafnréttismál og koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti. 

Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum starfar jafnréttisfulltrúi. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi í skólanum. Jafnréttisfulltrúi sendir Mennta- og menningarráðuneyti árlega greinargerð um jafnréttisstarf skólans sbr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Jafnréttisfulltrúi á sæti í jafnréttisnefnd og í vinnuhópi sem sér um gerð starfsmannastefnu.

 

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Kynjajafnréttis sé gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda, beinna og/eða óbeinna. Einnig skulu kynin njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Jafnréttissjónarmið og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna verða að vera virkur þáttur í starfsmannastefnu skólans. Í starfsmannastefnunni þarf meðal annars að taka mið af jafnrétti þegar fjallað er um líðan starfsfólks á vinnustað og starfsanda. Einnig þarf í starfsmannastefnu að vera ljóst hvernig starfsfólki er gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Jafnréttisáætlun og starfsmannastefna skólans verða að vera samhljóma. Til að gæta jafnréttissjónarmiða tekur jafnréttisfulltrúi þátt í endurskoðun starfsmannastefnu og er það eitt af hlutverkum jafnréttisnefndar að vera til ráðgjafar við endurskoðunina.

 

Jafnréttisfulltrúar skólaárið 2018-2019 eru Thelma Björk Gísladóttir og Ólafur Týr Guðjónsson en auk þeirra eru í jafnréttisnefnd:  Birita i Dali og Egill Andrésson