Námið

Skólinn býður upp á verk- og bóknám. Bæði styttri brautir og brautir til starfsréttinda og stúdentsprófs.

Á stúdentsprófsbraut eru þrjár ólíkar námslínur auk þess sem nemendur geta stundað nám til stúdentsprófs að loknu eða samhliða starfsnámi. Stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í háskóla og ýmsa sérskóla eða starfsréttindanámi. 

Nám til stúdentsprófs

Þriggja ára stúdentsprófsbraut

Nemandi með stúdentspróf af bóknámsbraut býr yfir almennri og sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við nám á háskólastigi. Sérhæfingin tengist því fræðasviði á háskólastigi sem stefnt er á. Við sérhæfinguna hefur hann öðlast innsýn inn í starfsaðferðir viðkomandi fræðasamfélags og býr yfir hæfni til að verða ábyrgur og virkur einstaklingur í því lýðræðislega samfélagi. Hann getur nýtt sér erlent tungumál við frekara nám og sér menntun sína í alþjóðlegu samhengi. Hann býr yfir hæfni til að geta tjáð sig um sérhæfða þekkingu sína, getur skýrt og rökstutt verklag á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Hann býr yfir hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við tækni og vísindi og getur nýtt þekkingu sína, leikni og hæfni til að greina ný tækifæri.

Val um þrjár línur:
Félagsvísindalína, náttúrufræðilína, opin lína. Þeir sem velja opna línu þurfa í samráði við umsjónarkennara að velja sér sérhæfingu eins og t.d. á sviði íþróttagreina eða lista. 
 

Viðbótarnám til stúdentsprófs af  starfsnámsbrautum.

Brautin er ætluð nemendum í starfsnámi með námslok á 3. hæfniþrepi. Markmið með námsleiðinni er að uppfylla þær lágmarkskröfur sem aðalnámskrá framhaldsskóla setur til stúdentsprófs. Sérhæfing nemandans er fólgin í starfsnámi hans. Mikilvægt er að nemendur skipuleggi nám sitt til að mæta aðgangsviðmiðum þeirrar námsleiðar sem þeir stefna á í háskóla.

Starfsbraut

Starfsbraut er ætluð nemendum sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla og þurfa sérhæft, einstaklingsmiðað nám sem mætir færni þeirra og áhuga. Brautin er ætluð nem­endum sem stundað hafa nám í sér­deildum grunn­skóla eða notið mik­illar sér­kennslu á grunn­skóla­stigi. Fötlunargreining frá viðurkenndum greiningaraðilum þarf að fylgja umsókn á starfsbraut. Unnið er út frá styrkleikum hvers og eins og áhersla er á að efla sjálfsmynd nemenda. Markmið starfsbrautar er að nemendur kynnist námi og starfi við hæfi og fái tækifæri til að auka við þekkingu sína og færni sem stuðlar að auknu sjálfstæði þeirra og auðveldar þeim að takast á við atvinnu og viðfangsefni daglegs lífs í nútíma samfélagi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og kennsluhættir brautarinnar eru fjölbreyttir og einstaklingsmiðaðir. Nám á brautinni er blanda af bóklegu og verklegu námi. 
 

Sjúkraliðabraut 

Sjúkraliðanám er 200 feininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla og starfsþjálfun getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.

Sjúkraliðabrú

Ófaglært fólk með langa starfsreynslu í umönnunarstörfum hefur tækifæri til þess að öðlast starfsréttindi sjúkraliða með námi á sjúkraliðabrú. Námið var sett á stofn í samvinnu Menntamálaráðuneytis, fjölbrautaskóla sem mennta sjúkraliða og Sjúkraliðafélags Íslands.

Inntökuskilyrði í nám á sjúkraliðabrú eru:

Að umsækjandi hafi náð 23 ára aldri og hafi að lágmarki 5 ára starfsreynslu við umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra, séu starfandi við slíka umönnun og hafi meðmæli frá vinnuveitenda sínum. Auk þess þurfa umsækjendur að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila að lágmarki 230-260 stundir. Umsækjendur, sem lokið hafa vissum áföngum í framhaldsskóla, geta fengið þá metna sem ígildi námskeiða. Þeir sem uppfylla eftirtalin skilyrði skulu að lágmarki ljúka 146 feininga sérgreinanámi sjúkraliðabrautar. Námsgreinarnar Heilbrigðisfræði, bókleg og verkleg hjúkrun, líffæra- og lífeðlisfræði, líkamsbeiting, lyfjafræði, næringarfræði, sálfræði, siðfræði, sjúkdómafræði, skyndihjálp, sýklafræði og upplýsingalæsi. Að auki er starfsþjálfun og vinnustaðanám.

Vélstjórnarbraut A

Vél­stjórn­arnám skiptist í meg­in­atriðum í sex náms­stig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum upp­fylltum, rétt til að fá útgefið skír­teini til starfa sem vél­stjóri. Þetta náms­stig (þriðja) er til rétt­inda til að gegna stöðu vélavarðar og vél­stjóra á skipum með vélarafl 750 kW og minna. Til sjós er starfssvið vél­stjóra að annast rekstur og viðhald vél- og raf­búnaðar og tryggja, í sam­vinnu við aðra yfir­menn um borð, að rekstur skipsins full­nægi gild­andi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og meng­un­ar­varnir. Véla- og tækja­búnaður skipa er mjög fjöl­breyttur þar sem skip eru hönnuð til ólíkra hlut­verka. Störf vél­stjóra eru því víðtæk og spanna starfssvið margra starfs­stétta í landi.

Þessi náms­braut til A-rétt­inda er fyrst og fremst fagnám til að öðlast vél­stjórn­ar­rétt­indin og ekki hugsuð fyrir nem­endur sem ætla í lengra nám (þeir velja náms­braut til B  rétt­inda). Jafnframt er hún ekki hugsuð fyrir þá sem er yngri en 20 ára, gert er ráð fyrir að atvinnuþátt­taka fram að því veiti nem­anda þann grunn sem þarf til að takast á við þetta nám og því er reynsla af sjó­mennsku mjög æskileg. 

Vélstjórnarbraut B

Með þessu námi færðu rétt­indi til að gegna stöðu yfir­vél­stjóra og 1. vél­stjóra á skipum með vélarafl að 1500 kW og minna og und­ir­vél­stjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna (að loknum sigl­inga­tíma). Náms­stig B veitir einnig rétt til að und­ir­gangast sveins­próf í vél­virkjun að lok­inni starfsþjálfun.

Vél­stjórn­arnám skiptist í meg­in­atriðum í sex náms­stig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum upp­fylltum, rétt til að fá útgefið skír­teini til starfa sem vél­stjóri. Þetta náms­stig (fjórða) er til rétt­inda til að gegna stöðu yfir­vél­stjóra og 1. vél­stjóra á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og und­ir­vél­stjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Þetta náms­stig er jafn­framt nám til prófs í vél­virkjun. Í náminu öðlast nem­endur einnig viðeig­andi menntun og þjálfun þannig að þeir geti sinnt vél­stjórn­ar­störfum í landi, t.d. á sviði orku- og veitu­fyr­ir­tækja og í iðnaði. Til sjós er starfssvið vél­stjóra að annast rekstur og viðhald vél- og raf­búnaðar og tryggja, í sam­vinnu við aðra yfir­menn um borð, að rekstur skipsins full­nægi gild­andi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og meng­un­ar­varnir.

Iðnnám

Grunnnám byggingarmanna

Grunn­námið er fyrsta önnin í sér­greinum byggingargreina og fá nem­endur kynn­ingu á öllum bygg­inga­grein­unum. Nem­endur eldri en 20 ára geta sótt um beint á fag­braut.  Nám í bygg­ing­ar­greinum er sérnám sem leiðir til starfs­rétt­inda og einnig er hægt að velja leiðir að háskóla­stigi. Sérnám í ein­stökum greinum tekur að jafnaði 2,5 ár auk 1,5 árs starfs­tíma hjá meistara.Námsgreinar á brautinni eru efnisfræði grunnnáms, framkvæmdir og vinnuvernd, grunnteikning, íþróttir, lífsleikni, skyndihjálp , stærðfræði og verktækni grunnnáms byggingargreina. Nemendur sem ekki uppfylla skilyrði til að hefja nám grunnnámið geta ennfremur þurft að bæta við sig undirbúningsáföngum í íslensku og ensku.

Húsasmíði

Húsasmiður býr yfir hæfni til að vinna sjálf­stætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Húsasmiður getur mælt út fyrir bygg­ingu og afsett hæðir, hannað og útfært ein­föld hús og hús­hluta, metið og valið aðferðir, verk­ferla, verk­færi og efni sem henta hverju sinni, metið eig­in­leika efnis og álagskrafta sem þeim tengjast, metið þörf fyrir viðhald húsa og hús­hluta og valið efni og aðferðir til viðhalds, leiðbeint hús­eig­endum um val á efni til nýbygg­inga og viðhalds. Húsasmíði er lög­gilt iðngrein.

Múraraiðn

Múrari býr yfir hæfni til að vinna sjálf­stætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Múrari þekkir öll helstu efni sem notuð eru við múr­verk úti og inni. Múrari getur skipu­lagt vinnu við jarðvegs­fyll­ingar í mann­virkja­grunnum, lagt steypustyrkt­ar­járn og bendinet í stein­steypu­virki, annast blöndun og niðurlagn­ingu stein­steypu, hlaðið úr steini og veggja­ein­ingum, múrhúðað utan og inn­an­húss, lagt flísar inn­an­húss og utan, lagt mat á, valið efni og gert við múr- og steypu­skemmdir, leiðbeint hús­eig­endum um val og á efni til nýbygg­inga og viðhalds. Múr­araiðn er lög­gilt iðngrein.

Grunnnám málm- og véltæknigreina

Grunnnám málm- og véltæknigreina er ætlað að veita nemendum góða og almenna þekkingu m.a. á málmsíði og véltækni. Einnig er lögð áhersla á að þjálfa nemendur til starfa á sem flestum sviðum málm- og véltæknigreina. Auk kjarnagreina taka nemendur faggreinar s.s. rafsuðu, vélstjórn og logsuðu. Brautin er undirbúningur fyrir sérnám m.a. í stálsmíði, bifvélavirkjun og vélstjórn. Að loknu grunnnámi velur nemandinn sér faggrein eftir áhugasviði.

Vélvirkjun

Vélvirki er lögverndað starfsheiti og vélvirkjun er löggilt iðngrein. Markmið námsins er að gera nemendum kleift að takast á við þau viðfangsefni sem vélvirkjar inna af hendi, þ.e. uppsetningu, viðgerðir, viðhald, endurnýjun og þjónustu á hvers kyns vél- og tæknibúnaði og flutningakerfum í skipum, vinnslustöðvum, vinnuvélum, verksmiðjum, orkuverum og orkuveitum, skipulagningu fyrirbyggjandi viðhalds, eftirliti með ástandi vélbúnaðar og greiningu bilana. Námið samanstendur af bóklegu námi í skóla og verklegu námi bæði í skóla og á vinnustöðum, ásamt starfsþjálfun í fyrirtækjum. Nám sem fer fram á vinnustað er samtvinnað bóklega náminu út námstímann og hefur að markmiði að þjálfa nemendur í vinnuferlum, auka færni þeirra á vinnumarkaði, þjálfa samvinnu á vinnustað og auka getu þeirra til þess að takast á við raunverulegar aðstæður í fyrirtækjum. Námið tekur að jafnaði þrjú heil ár og við lok þess staðfesta nemendur kunnáttu sína og færni í sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Grunnnám rafiðna 

Námið veitir nauðsynlegan  und­ir­búning fyrir fagnám í rafiðngreinum. Þetta er fornám fyrir raf­virkjun, raf­einda­virkjun, raf­véla­virkjun og raf­veitu­virkjun. Námið tekur að jafnaði fjórar annir og er skil­greint sem loka­próf á öðru þrepi.

Námið er að þriðjungi bók­legar greinar en annað eru fag­greinar.

Annað nám

Framhaldskólabrú

Námi á framhaldsskólabrú er ætlað að búa nemendur sem ekki hafa náð tilskyldum árangri á grunnskólaprófi undir nám á verk-, bók- eða listnámsbrautum skólans. Námið er að lágmarki 100 framhaldsskólaeiningar og því lýkur með framhaldsskólaprófi. Gert er ráð fyrir að stór hluti nemenda á framhaldsskólabrú hefji nám á annarri námsbraut í framhaldi af eða samhliða námi á framhaldsskólabrú. Á brautinni er öflugt umsjónarkerfi, mikið samráð við forráðamenn og nemendur fá aðhald og stuðning í námi.