Heimsóknin hófst á mánudegi þar sem tekið var á móti gestunum niðri á bryggju þegar þeir gengu út úr Baldri. Þar beið þeirra skemmtileg óvænt uppákoma – nemendur FÍV mættu með pysjur sem þeir höfðu bjargað um nóttina og sýndu gestunum. Gestirnir komu einmitt á hápunkti lundapysjutímabilsins og voru yfir sig ánægðir að fá að sjá pysjur. Þess vegna var ákveðið að byrja á því að fara með alla út á hamar til að sleppa pysjunum. Frábært veður, náttúrufegurðin og pysjurnar, það var sannarlega byrjað á toppnum.
Vinnan yfir vikuna gekk mjög vel. Nemendur kynntu verkefni sem þeir höfðu unnið að fyrir heimsóknina og fræddu hvert annað um mismunandi tegundir vatnsfótspora og hvernig hægt er að reikna þau út, til dæmis þegar kemur að landbúnaði, matvælaframleiðslu eða fatnaði.
Einnig var farið í heimsókn á Vatnssafnið, þar sem Stebbi Jónasar tók á móti hópnum og sagði frá vatnssögu Vestmannaeyja. Ótrúlega áhugavert safn sem meira að segja Vestmannaeyingarnir í hópnum höfðu ekki heimsótt og sumir vissu ekki af. Einnig var farið í gönguferð um Stórhöfða og þar voru þó nokkrar selfies myndir teknar enda útsýnið yfir eyjarnar í kring einstaklega fallegt.
Við fengum svo til okkar Þóru Hrönn, stofnanda og eiganda Kubuneh, sem hélt áhrifaríkt og mikilvægt erindi um verslunina Kubuneh, hjálparstarfið í Gambíu, staðreyndir um neyslu (t.d. Temu kaup, hraðtísku og afleiðingar þess) og samfélagsábyrgð. Fyrirlesturinn hennar vakti mikla umræðu og eftir hann voru allir sammála um að fleiri ættu að fá að heyra hana tala. Hún vakti alla viðstadda til umhugsunar.
Aðalverkefni heimsóknarinnar snerist þó um að skoða matseðil GRV, reikna út vatnsfótspor réttanna og finna leiðir til að minnka það. Nemendur voru skipaðir í hópa, hver hópur valdi sér rétt til að endurbæta – og svo átti að elda réttinn. Að sjálfsögðu var gerð keppni úr þessu og við fengum sérstaka dómara til að velja sigurvegarana. Einsi Kaldi og fulltrúi Vestmannaeyjabæjar; Kjartan Vídó komu svangir upp í FÍV til þess að smakka á réttunum og áttu í mestu vandræðum með að velja sigurvegara, svo góðir kokkar voru nemendurnir.
En heimsóknin snerist ekki eingöngu um verkefni og fræðslu. Gestirnir tóku þátt í nýnema grillinu og fengu að smakka alvöru íslenskar pulsur – með öllu, að sjálfsögðu.
Þau komu einnig í Pálínuboð í sal skólans, þar sem kennarar, nemendur og foreldrar nutu góðs matar og samveru fram á kvöld. Nemendahópurinn tók þátt í FÍV Cup í rigningunni og fengu að upplifa sanna Vestmannaeyjastemningu; lundapysjuveiðar um nóttina.
Heimsóknin heppnaðist frábærlega – vinnan var fjölbreytt, fjörug og mikið hlegið. Þegar hóparnir kvöddu fengu þeir að taka með sér nokkrar pysjur um borð í Baldur og sleppa þeim út á sjó á leiðinni í land, sem þau sögðu vera ógleymanlega upplifun.
Að lokum viljum við koma á framfæri innilegu þakklæti til Þóru Hrannar, Stebba Jónasar, Einsa Kalda og Kjartans Vídó fyrir að hafa tekið vel í beiðnir okkar og aðstoðað okkur við að gera heimsóknina bæði fræðandi og skemmtilega. Þetta er einmitt það sem einkennir samfélagið okkar – góðvild, samstaða og vilji til að hjálpast að.
Slóð á grein sem birtist í Tígli 9. nóvember 2025