Erasmus ferð til Pisa í nóvember 2025

Heimsóknin hófst með fyrirlestrum nemenda á nýloknum verkefnum þeirra. Ítalirnir buðu svo hópnum í skoðunarferð um verndarsvæði WWF í Toskana, þar á meðal Tirrenia dunes, Cornacchiaia Oasis og Massaciuccoli vatnasvæðið. Veðrið lék við hópinn og náttúrufegurðin var mögnuð – fjölbreytt dýralíf, breytileg landslag og fallegt umhverfi. Leiðsögukonan miðlaði fróðleik af mikilli innlifun og nemendur fengu góða yfirsýn yfir hvað náttúruvernd felur í sér á þessum svæðum.

Nemendur fengu einnig að kynnast verkefninu Plastic Pirates, sem fjallar um mengun af völdum plasts í sjó og vatni. Hópurinn fór í strandferð við Tirrenia þar sem þeir týndu plast, tóku sýni og unnu að því að greina þau á rannsóknarstofu skólans. Það kom mörgum á óvart hve mikið míkróplast og bakteríur leynast við strendur Miðjarðarhafsins. Þess ber þó að geta að strendur í kringum Pisa eru margar með Bláa fánann, en sú viðurkenning byggir einmitt á því að haf- og strandarsvæði séu hrein og þeim sé vel sinnt. Með verkefnum eins og Plastic Pirates er ljóst að mikill metnaður er lagður í að viðhalda náttúrunni.

Þar sem þetta var síðasta heimsóknin í Erasmus-verkefninu tóku nemendur einnig þátt í lokasýningu þar sem afrakstur verkefnisins sl. tvö ár var kynntur. Við kennararnir gætum ekki verið stoltari – þau voru kurteis, dugleg, áhugasöm og óhrædd við að taka þátt í öllu sem gert var.

Dagarnir voru margir langir og mörgþúsund skref gengin á hverjum degi, en það var auðvitað ekki bara unnið. Hópurinn fékk t.d. fræðslugöngu um eldri borgarhluta Pisa og það var að sjálfsögðu stoppað við hinn fræga skakka turn. Nemendur fengu líka tíma til að njóta borgarinnar á eigin forsendum; kynnast ítalskri menningu og hafa gaman í góðum hópi jafnaldra á meðan kennararnir fóru í skoðunarferð til Lucca. Daginn fyrir heimferð skellti íslenski hópurinn sér í dagsferð til Flórens. Þar fóru nemendur í hestvagnaferð um miðbæinn – sannkallað ævintýri – á meðan kennararnir lögðu í lengri gönguferð „upp fjallið“ til að njóta útsýnisins yfir þessa stórfenglegu borg.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og hópurinn frábær. Erfitt er að trúa því að þetta Erasmus-verkefni sé nú runnið sitt skeið á enda – tvær ferðir til Sevilla, tvær til Pisa og tvær móttökur hér heima í Eyjum á tveimur árum. Þetta hefur verið krefjandi, skemmtilegt og afar fróðlegt verkefni. Það sem stendur þó upp úr er ekki bara fræðslan, heldur nemendurnir. Að fylgjast með nemendum okkar stíga út fyrir þægindarammann, taka ábyrgð, vinna af heilindum og sýna að þeim er treystandi í verkefnum sem þessum. Við í Vestmannaeyjum getum svo sannarlega verið stolt af unglingunum okkar.