Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2025 fyrir framúrskarandi nám í málm- og vélstjórnargreinum

Sérstaða námsins felst í því hvernig tekist hefur að umbreyta hefðbundnu námi í einstaklingsmiðað, verkefnamiðað og atvinnulífstengt ferli. Nemendur vinna raunhæf verkefni sem endurspegla aðstæður í atvinnulífinu – í skipum, á vélaverkstæðum og í málmiðnaði – og upplifa þannig daglega þá ábyrgð sem fylgir því að tryggja öryggi, áreiðanleika og framleiðni í tæknidrifnu umhverfi. Verkefnin eru stigbundin, frá einföldum grunnverkefnum upp í flóknar viðhalds-, smíða- og rekstrarlausnir, sem byggja upp seiglu, rökhugsun og gæðavitund nemenda. 

Kennslan þykir til fyrirmyndar og kennarar sýna mikinn metnað við leiðsögn og leggja ríka áherslu á að endurgjöfin sé markviss. Nemendur vinna á eigin hraða, en fá á sama tíma reglulega hvatningu, leiðsögn og skýrar verkkröfur sem ýta undir framfarir. Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á samvinnu og samskipti, þar sem nemendur læra ekki aðeins af kennurum heldur einnig hver af öðrum. Sjálfstæði þeirra er styrkt jafnhliða því að félagsfærni og ábyrgð er ræktuð. Þetta tryggir að útskrifaðir nemendur eru vel undirbúnir fyrir krefjandi störf og frekara nám. 

Samstarf við atvinnulífið er hornsteinn námsins. Fyrirtæki taka virkan þátt í menntun nemenda með því að veita aðgang að raunverulegum verkefnum, starfsnámi og þekkingu sem byggir á áratuga reynslu. Þannig nýtur námið bæði samfélagslegrar festu og faglegs styrks, þar sem skólinn og atvinnulífið ganga hönd í hönd við að mennta næstu kynslóð tæknimenntaðs starfsfólks. Þetta samstarf eykur gæði námsins og tryggir að nemendur öðlist þá færni sem er í senn hagnýt, eftirsótt og framtíðarvæn. 

Í náminu er jafnframt lögð áhersla á nýsköpun, sjálfbærni og tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nemendur tileinka sér vinnulag sem miðar að því að draga úr umhverfisáhrifum, hámarka nýtingu auðlinda og stuðla að verðmætasköpun sem byggir á þekkingu og ábyrgri tækni. Þeir læra ekki aðeins að vinna með nútímalega tækni heldur einnig  hugsa gagnrýnið um áhrif hennar á samfélagið og umhverfið.

Árangurinn talar sínu máli. Nemendur skólans eru eftirsóttir starfsmenn, hvort sem er á sjó eða í landi, og margir hafa sótt áframhaldandi nám í tækni- og verkfræði eða stofnað eigin fyrirtæki. Námið stuðlar þannig bæði að byggðafestu í Eyjum og að alþjóðlegri færni nemenda sem geta starfað hvar sem er í heiminum.