EFNA2EE05 - Atóm, frumefni, efnasambönd og efnahvörf

Í þessum fyrsta áfanga í efnafræði er byrjað á því að láta nemendur vinna með hugtök og þekkingu úr grunnatriðum efnafræðinnar. Samtímis því eru nemendur þjálfaðir í þeim vinnubrögðum sem notuð eru í þessari grein. Nemendur vinna saman í hópum og lögð er áhersla á sjálfstæði og ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu. Efnisþættir sem teknir verða fyrir í áfanganum eru: hrein efni og efnablöndur, eiginleikar efna, mælistærðir og tölur, markverðir tölustafir og óvissa, uppbygging atóma, jóna og sameinda, efnatákn og helstu efnabreytingar, lotukerfið, nafnakerfi ólífrænna efna, mólhugtakið, hlutföll í efnajöfnum, helstu tegundir efnabreytinga, styrkur lausna og þynningar, rafeindaskipan atóma og jóna.