ENSK3KB05 - Enskar kvikmyndir og bókmenntir

Í þessum áfanga er lögð áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemandans og eru efnistök breytileg frá ári til árs. Viðfangsefni áfangans eru fjölbreytt. Sem dæmi má nefna skapandi skrif, bækur og kvikmyndir, verk eftir ákveðna höfunda, daglegt mál, útgáfa tímarits, gerð myndbanda, tónlist, SAT orðaforða og greinalestur. Þema áfangans er mannleg hegðun og leitað er svara við spurningunni hvernig hver og einn getur lagt sitt af mörkum til þess að gera heiminn að betri stað. Lestur og hlustun: Lögð er rík áhersla á lestur bókmennta og fræðigreina og raunverulegra reynslusagna. Hlustun byggist á fjölbreyttu efni sem tengist oft á tíðum þeim bókmennta- og kvikmyndaverkum sem verið er að fjalla um hverju sinni. Ritun: Áhersla er lögð á skapandi, akademísk og blaðagreinaskrif. Einnig eru nemendur hvattir til þess að nota orðaforðann sem unnið er með í áfanganum markvisst í skrifum sínum. Skapandi skrifin tengjast oftar en ekki bókmenntum og kvikmyndum sem unnið er með yfir önnina. Tjáning: Gerðar eru kröfur um að nemendur taki virkan þátt í umræðum á ensku í kennslustundum. Nemendur halda fyrirlestra um ýmis málefni sem tengjast þema áfangans, bæði í hópum og sem einstaklingar. Lögð er áhersla á að virkja gagnrýna hugsun nemandans. Nokkur áhersla er lögð á orðaforða í áfanganum, sérstaklega orðaforða sem þykir mikilvægur fyrir SAT og TOEFL próf.

Slóð á áfanga í námskrá