TRÉS1VT08 - Vél- og trésmíði

Í áfanganum eru kennd grunnatriði trésmíða með áherslu á þekkingu og færni í notkun trésamsetningar, límingar, pússning og yfirborðsmeðferð. Haldið er áfram umfjöllun um efnisfræði tréiðna þar sem ítarlegar er farið í ýmsa eðliseiginleika viðar, flokkun, merkingar og þurrkun. Nemendur kynnast notkun algengra tegunda viðarlíms og yfirborðsefna, vinnubrögðum og öryggisþáttum. Kennslan byggist að hluta á fyrirlestrum þar sem kennari útskýrir grunnatriði fyrir nemendum en stærsti hlutinn eru fjölbreytileg smíðaverkefni sem byggjast á markmiðum áfangans. Í áfanganum læra nemendur grunnatriði í véltrésmíði. Fjallað er um algengustu trésmíðavélar sem notaðar eru í tré- og byggingaiðnaði, meðferð þeirra og viðhald. Farið er yfir helstu notkunarmöguleika einstakra véla og tækja, stillingar, fyrirbyggjandi viðhald, hlífar, hjálpartæki, líkamsbeitingu og öryggismál og nemendur fá innsýn í að velja og skipta um helstu eggjárn. Lögð er áhersla á notkunarleiðbeiningar og merkingar á tækjum og búnaði. Kennsla í áfanganum byggir á innlögnum frá kennara þar sem hann útskýrir grunnatriði fyrir nemendum með sérstakri áherslu á öryggisþætti en að öðru leyti er aðaláherslan á verkefni þar sem nemendur fá þjálfun í notkun véla og tækja. Mikilvægt er að nemendur læri um ábyrgð sína í umgengni við trésmíðavélar og að takast ekki á við vélavinnu án fullnægjandi undirbúnings, hjálpar- og öryggisbúnaðar. Áfanginn er bæði kenndur á námsbrautum fyrir húsasmiði og húsgagnasmiði.  

Slóð á áfanga í námskrá